Innlent

Útilokað að flugvöllurinn fari án samþykkis ríkisins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Innanríkisráðherra segir útilokað að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri án samþykkis ríkisins, enda eigi ríkið landið að mestu. Það sé því óráð hjá borgarstjórn að skipuleggja þar íbúðahverfi, - auk þess vilji yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa halda flugvellinum.

Borgarstjórn Reykjavíkur boðar nú þéttingu byggðar með fjórtán þúsund nýjum íbúðum á næstu 18 árum, þar af á helmingurinn, eða um sjö þúsund íbúðir, að rísa í Vatnsmýri. Ögmundur Jónasson, ráðherra flugmála, telur að borgin geti ekki án samþykkis ríkisins knúið það fram að flugvöllurinn fari.

„Það finnst mér alveg útilokað að borgin geti gert," segir Ögmundur og vísar til þess að stór hluti flugvallarsvæðisins sé í eigu ríkisins.

„Og það verður ekkert gert með þetta eignarland ríkisins án samráðs við ríkið. Það liggur í augum uppi," segir Ögmundur í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

En það er ekki aðeins eignarhald á landinu sem kemur í veg fyrir að borgarstjórn Reykjavíkur hafi fulla stjórn á málinu. Það gerir einnig fyrirvari sem umhverfisráðherra gerði fyrir tíu árum við aðalskipulag Reykjavíkur. Vegna fyrirvarans fær sá hluti aðalskipulagsins sem lýtur að Vatnsmýri ekki gildi fyrr en niðurstaða er fengin um flugstarfsemina.

„Flugvöllurinn, hann er ekkert á leiðinni burt. Það er alveg ljóst að það gerist ekki á allra næstu árum og ef minn vilji næði fram að ganga þá yrði hann hér til frambúðar," segir Ögmundur.

Ráðherrann segir að bærileg sátt sé meðal landsmanna um flugvöllinn, einnig meðal borgarbúa, og bendir á nýlegar skoðanakannanir, en fyrir hálfu ári kom fram að 88 prósent íbúa landsbyggðar og 82 prósent borgarbúa vilja völlinn áfram í Vatnsmýri.

„Yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa vill halda flugvellinum þar sem hann er. Og er ekki rétt að hlusta á rödd þjóðarinnar og rödd borgarbúa? Og kannski rödd skynseminnar líka."

En hvað finnst ráðherranum um að borgin skipuleggi nú flugvallarsvæðið undir annað?

„Hún náttúrlega tekur ákvörðun um það sjálf. En sjálfum finnst mér það vera óráð. Þar er ég nú bara að tala sem Reykvíkingur líka," svarar Ögmundur.


Tengdar fréttir

25.000 nýir borgarbúar vestan Elliðaáa

Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir að borgarbúum fjölgi um að minnsta kosti 25.000 á næstu 18 árum. Reisa á 14.500 íbúðir fyrir árið 2030 til að mæta þeirri fjölgun. Unnið verður að því að þétta byggð og verða þær því allar vestan Elliðaáa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×