Innlent

25.000 nýir borgarbúar vestan Elliðaáa

Hjálmar Sveinsson skrifar
Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir að borgarbúum fjölgi um að minnsta kosti 25.000 á næstu 18 árum. Reisa á 14.500 íbúðir fyrir árið 2030 til að mæta þeirri fjölgun. Unnið verður að því að þétta byggð og verða þær því allar vestan Elliðaáa.

Í bæklingi um aðalskipulagsvinnuna, en nú stendur yfir endurskoðun á því, segir að miðað sé við að allt að 90% nýrra íbúða rísi innan núverandi þéttbýlismarka. Stærstu uppbyggingarsvæðin eru í Vatnsmýri við Mýrargötu og í Elliðaárvogi. Þá verður byggð þétt á öðrum vannýttum svæðum.

„Skipulag bygginga, gatna og opinna svæða verður samtvinnað á heildrænan hátt með borgarmiðað gatnakerfi að leiðarljósi. Íbúðir, skrifstofur, verslun og þjónustu verður að finna innan sömu götureita. Byggðin verður almennt 3-5 hæðir og íbúðarþéttleiki um 60 íbúðir/ha,“ segir í bæklingnum.

Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs, segir mörg rök liggja fyrir því að stöðva útþenslu borgarinnar og byggja inn á við. Götur Reykjavíkurborgar séu yfir 1.000 kílómetrar að lengd og reksturinn dýr eftir því.

„Allar kannanir á markaði segja okkur að straumurinn liggi inn í borgina. Við sem borgaryfirvöld hljótum að svara því.“ Hjálmar segir að nú þegar sé hafin uppbygging í Vatnsmýri sem falli vel að áherslum aðalskipulagsins.

„Þar vísa ég til 280 stúdentaíbúða sem byrjað er að byggja í Vatnsmýrinni. Þá er Búseti búinn að kynna fyrirætlanir um reit við Einholt og Þverholt, en þær ganga út á allt að 250 íbúðir. Þá má búast við að fljótlega gerist eitthvað á Hampiðjureitnum og vonandi kynnum við í borgarráði nýtt rammaskipulag fyrir Hafnarsvæðið frá Sjóminjasafni að Hörpu í þessari viku. Á Mýrargötusvæðinu geta risið 250 íbúðir.“

Stýrihópur skipaður fulltrúum allra flokka hefur unnið að aðalskipulagsvinnunni og hefur hún verið kynnt á hverfisfundum. Þá vinnur skipulagssvið að frekari útfærslu. Vonast er til að ráðherra staðfesti skipulagið fyrir vorið.

kolbeinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×