Enski boltinn

Enskur fréttavefur segir Gylfa fá tíu milljónir í vikulaun | Kaupverðið óuppgefið

Nordic Photos / Getty Images
Fréttavefurinn Goal.com greinir frá því í dag að Gylfi Þór Sigurðsson muni fá 50 þúsund pund, rétt tæpar tíu milljónir króna, í vikulaun hjá Tottenham.

Kaupverðið er sagt vera átta milljónir punda, um 1,6 milljarður króna, en engar tölur hafa fengist staðfestar. Á heimasíðu þýska liðsins Hoffenheim, gamla félags Gylfa, segir að félögin hafi samþykkt að gefa ekki upp kaupverðið.

Í síðustu viku var greint frá því að Liverpool hafi ekki verið reiðubúið að mæta launakröfum Gylfa en fulltrúar hans sögðu þann fréttaflutning rangan.

Þýska blaðið Bild segir að Hoffenheim fái um tíu milljónir evra fyrir Gylfa, sem helst í hendur við fréttaflutning enskra miðla. BBC tók undir þessar tölur.

Gylfi var einna helst orðaður við Liverpool eftir að Brendan Rodgers var ráðinn þangað. Rodgers stýrði Swansea á síðasta tímabili og fékk Gylfa að láni frá Hoffenheim á síðari hluta tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×