Enski boltinn

Gylfi einn dýrasti leikmaður Íslands frá upphafi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við Luis Suarez.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við Luis Suarez. Nordic Photos / Getty Images
Óhætt er að fullyrða að Gylfi Þór Sigurðsson sé orðinn einn dýrasti knattspyrnumaður Íslandssögunnar en hann gekk í dag í raðir Tottenham á Englandi.

Þegar Gylfi fór til Hoffenheim árið 2010 var kaupverðið talið vera um sjö milljónir punda. Þá var hann sagður næstdýrasti leikmaður Íslands frá upphafi, á eftir Eiði Smára Guðjohnsen.

Kaupverð Gylfa nú fæst ekki uppgefið en samkvæmt enskum fjölmiðlum er það um átta milljónir punda.

Eiður Smári Guðjohnsen fór til Barcelona árið 2006 fyrir óuppgefna upphæð en spænskir fjölmiðlar sögðu þá hana nema um tólf milljónum evra. Aðrir fjölmiðlar sögðu þá upphæð lægri. En þar sem kaupverð þeirra Gylfa og Eiðs voru ekki staðfest með opinberum hætti er erfitt að fullyrða nákvæmar tölur hvað þetta varðar.

Ljóst er að Gylfi og Eiður Smári eru í nokkrum sérflokki hvað þetta varðar, en aðrir íslenskir leikmenn hafa áður verið seldar fyrir háar upphæðir - svo sem Hermann Hreiðarsson og fleiri.

Miðað við gengisþróun íslensku krónunnar undanfarin ár má gera ráð fyrir því að upphæðin sem er nú greidd fyrir Gylfa sé sú hæsta sem hafi verið greidd fyrir íslenskan leikmann í krónum talið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×