Innlent

Vill að eftirlaunaaldur verði hækkaður

Karen Kjartansdóttir skrifar
Það er óeðlilegt að gera ráð fyrir því að fólk fari á eftirlaun þegar það verður 67 ára. Þetta segir þingmaður sem hyggst leggja fram frumvarp um breytingar á kerfinu. Bregðast verði við, því skattgreiðendum fækki og eldri borgurum fjölgi.

Skuldbindingar vegna lífeyrisgreiðslan fer víða vaxandi í heiminum með fjölgun eldri borgara og lengri lífaldurs. Slíkar skuldbindingar eru meðal annars talin ein af ástæðunum fyrir efnahagskreppunni í Grikklandi en þar þykir kerfið einkar rausnarlegt og fólk getur byrjað snemma á eftirlaunum.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðsflokksins, telur mikilvægt að Íslendingar horfist í augu við þennan vanda fljótlega.

„Menn þurfa að vera mjög varkárir með að lesta vinnandi menn með lífeyrisgreiðslum, því það er svo auðvelt að lofa lífeyrisgreiðslum því hann borgast ekki fyrr en einhver tímann í framtíðinni," segir Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Pétur segir óeðlilegt sé að miða við að fólk verði gamalmenn 67 ára, sem reyndar er aldur sem Otto von Bismarck kannslari Þýskalands miðaði við þegar hann ákvað að greiða gömlum hermönnum lífeyri á öndverðri 19. öld, þegar ævilengd fólks var mun styttri.

„Það er að mínu mati allt of lágur aldur, fólk er orðið svo miklu frískara en það var fyrir svona þrjátíu fjörtíu árum og ævin er alltaf að lengjast þannig mér þætti eðlilegt að vinnualdurinn ætti að sjálfsögðu líka að lengjast, fyrir utan það að vinnan er ákveðin lífsgæði og það að svipta menn þeim gæðum getur verið mjög slæmt."

Hann hefur lagt til að 67 ára mörk lífeyrisgreiðslna verði afnumin. Betur færi á að fólk geti valið hvenær það hefur töku lífeyris eftir þann aldur. Þeir sem þess óski geti byrjað snemma á eftirlaunum sem myndi þá hafa í för með sér að lífeyrinn lækkaði en aðrir gætu tekið lífeyrinn út seinna og þá fengið hærri greiðslur.

Svokallaður kynslóðasamningur, felst í því að ef foreldrar hugsa um börn sín hugsi þau um foreldra sína í ellinni. Þessi samningur er enn í gildi en hefur í gegnum tíðina færst meira yfir á almannatryggingar og lífeyrissjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×