Innlent

Katrín lýsir yfir stuðningi við Þóru

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra styður Þóru Arnórsdóttur í embætti forseta Íslands. Katrín lýsir þessu yfir í grein sem birtist hér á Vísi og hún skrifar með átta öðrum bernskuvinkonum sínum. Í hópnum er líka Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG. Katrín er fyrsti ráðherrann til að lýsa yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda með greinarskrifum.

Í grein Katrínar og vinkvenna hennar segir að vinkonuhópurinn samanstandi af lögfræðingi, grunnskólakennara, aðstoðarleikskólastjóra, ráðherra, rússneskufræðingi, borgarfulltrúa, hagfræðingi, matselju og tölvunarfræðingi. „Við erum allar sem ein sannfærðar um að Þóra Arnórsdóttir sé okkar besti kostur sem næsti forseti Íslands. Konan sem bauð sig til forsætis þunguð af framtíðinni. Við treystum henni til að verða forseti okkar allra, til að standa fyrir uppbyggilegu samtali, bæði innanlands sem og við erlendar þjóðir, til að taka erfiðar ákvarðanir og til að stuðla að sátt og samlyndi sem svo sárlega hefur skort í samfélagi okkar að undanförnu," segja þær vinkonurnar.

Það kemur ekki á óvart að ráðherrar eða fylgjendur ríkisstjórnarinnar lýsi yfir stuðningi við Þóru. Flesta skoðanakannanir sem hingað til hafa verið gerðar benda til þess að Þóra sæki fylgi sitt til stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Ólafur Ragnar Grímsson sækir hins vegar fylgi sitt fyrst og fremst til stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokkanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×