Innlent

Björn Valur: "Það er eitthvað súrt við þetta“

VG skrifar
Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.
„Þetta slær menn," segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, um ákvörðun Landsbankans um að loka og sameina útibú á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík. Starfsmönnum útibúanna úti á landi munu því fækka um 50 við þessar aðgerðir, 29 starfsmönnum hefur verið sagt upp en 15 verið boðinn starfslokasamningur vegna aldurs.

Afgreiðslu bankans verður lokað á Flateyri og í Súðavík, á Bíldudal og á Króksfjarðarnesi. Þá verður afgreiðslan á Grundarfirði sameinuð útbúi í Snæfellsbæ. Útibú bankans á Eskifirði og Fáskrúðsfirði verða sameinuð útibúi á Reyðarfirði. Þá verður útibú í Árbæ sameinað útibúi í Grafarholti, en áfram verður afgreiðsla í Árbæ.

Fréttirnar hafa komið íbúum byggðarlaganna mjög á óvart. Þannig greinir ísfirski fréttavefurinn Bæjarins bestu frá því í dag að óvanaleg sjón hafi blasað við íbúum Súðavíkur í morgun. Þá hafði einn íbúi bæjarins brugðið á það ráð að flagga fána Landsbankans öfugt, og í hálfa stöng, fyrir framan útibú bankans.

Björn Valur segir að þetta sé augljós blóðtaka fyrir fjölmarga bæi, sem sumir standa þegar höllum fæti. Hann segir lokun útibúanna endahnútinn á sorgarsögu Sparisjóðsins í Keflavík.

„Nú er endahnúturinn sá að loka útibúum í þessum byggðarlögum svo það sé hægt að spara 400 milljónir," segir Björn Valur sem bætir við að þetta líti ekki vel út. Hann vilji fá svör vegna aðgerðanna og segir að upphæðirnar séu ekki verulegar í ljósi umfangs bankans, „án þess að ég tali það eitthvað niður," bætir Björn Valur við.

„Mér finnst að Landsbankinn eigi að hafa annað hlutverk en aðrir bankar, enda í eigu ríkisins," svarar Björn Valur spurður hvort þetta séu ekki eðlilegar aðhaldsaðgerðir, og komi að lokum skattgreiðendum til góða.

Björn Valur segist ekki ætla að beita sér gagnvart bankanum í málinu, en hann vilji fá frekari útskýringar vegna lokana útibúanna.

„Það er eitthvað súrt við þetta," segir hann svo að lokum.


Tengdar fréttir

50 missa vinnuna í hagræðingu

Starfsmönnum Landsbanka Íslands fækkar um 50 um mánaðamótin vegna hagræðingaraðgerða. Átta útibúum verður lokað eða þau sameinuð öðrum og deildir í höfuðstöðvum bankans verða sameinaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×