Innlent

Segir aðgerðirnar bitna mest á höfuðborgarsvæðinu

VG skrifar

„Þessar aðgerðir bitna mest á höfuðborgarsvæðinu, meirihluti þeirra sem láta af störfum eru þaðan, það er því ekki rétt að aðgerðirnar bitni verst á landsbyggðinni," segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, en mikil óánægja er með hagræðingaraðgerðir Landsbankans úti á landi þar sem til stendur að loka útibúum bankans og sameina öðrum.

Þannig gagnrýndi Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna sameininguna og sagði hana meðal annars bitna harkalega á byggðarlögum úti á landi sem standa höllum fæti. Kristján segir gagnrýnina á misskilningi byggða.

Afgreiðslu bankans verður lokað á Flateyri og í Súðavík, á Bíldudal og á Króksfjarðarnesi. Þá verður afgreiðslan á Grundarfirði sameinuð útbúi í Snæfellsbæ. Útibú bankans á Eskifirði og Fáskrúðsfirði verða sameinuð útibúi á Reyðarfirði. Þá verður útibú í Árbæ sameinað útibúi í Grafarholti, en áfram verður afgreiðsla í Árbæ.

Í þessum hagræðingaraðgerðum munu 50 manns missa vinnuna hjá bankanum.
Kristján segir að það liggi í augum uppi að útibúakerfið sé áratugagamalt afar fáir starfsmenn sem hafi unnið í smæstu útibúunum. Hann segir það frekar í hag sveitarfélaga að útibú séu styrkt með þessum hætti og störf sköpuð sem krefjast frekari þekkingar.

„Svo hafa einfaldlega orðið ótrúlegar framfarir í tæknimálum. 80 prósent viðskiptavina okkar stunda sín viðskipti við bankann með rafrænu hætti," segir Kristján.

Hann bætir við að bankinn hafi fundað með bæjarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem til stendur að leggja niður og sameina útibú. Hann segir að þar hafi verið skilningur á aðgerðunum. „En það er fullur skilningur á því að menn reyni að verja sín heimahéröð," segir Kristján en meðal þeirra sem eru afar ósáttir við breytingarnar er Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð, sem hvetur íbúa á Fáskrúðsfirði og Eskifirði til þess að taka peninga sína út úr Landsbankanum og leggja þá inn á reikninga annarsstaðar.

Kristján segir að eftir að Landsbankinn tók yfir Sparisjóðinn í Keflavík hafi það verið einsýnt að breytinga væri þörf. „Launakostnaður er stærsti hluti af rekstri bankans. Og það er náttúrulega þannig að smáar einingar eru reknar með tapi," útskýrir Kristján að lokum.


Tengdar fréttir

Landsbanka fánanum flaggað í hálfa

Óvanaleg sjón blasti við íbúum Súðavíkur í morgun, en þá hafði einn íbúi bæjarins brugðið á það ráð að flagga fána Landsbankans öfugt, og í hálfa stöng. Eins og flestir vita tíðkast að flagga þjóðfánanum í hálfa stöng við andlátsfregn – en í gær ákvað Landsbankinn að loka útibúi sínu í Súðavík, líkt og í Króksfjarðarnesi, á Flateyri og á Bíldudal. Starfsmönnum Landsbankans mun í heildina fækka um 50 manns á landinu öllu við þessa hagræðingu, en önnur útibú á landinu koma til með að loka sömuleiðis.

Björn Valur: "Það er eitthvað súrt við þetta“

"Þetta slær menn,“ segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, um ákvörðun Landsbankans um að loka og sameina útibú á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík. Starfsmönnum útibúanna úti á landi munu því fækka um 50 við þessar aðgerðir, 29 starfsmönnum hefur verið sagt upp en 15 verið boðinn starfslokasamningur vegna aldurs.

Fjölda fólks sagt upp á Vestfjörðum

„Þetta eru ömurleg skilaboð ofan í allt það sem stjórnvöld hafa sent okkur til þessa. Þetta setur lítil samfélög í uppnám, því hvert einasta starf skiptir miklu máli,“ segir Ómar Már Jónsson sveitarstjóri Súðavíkurhrepps um lokun útibús Landsbankans í Súðavík. Hagræðingar í rekstri Landsbankans hafa í för með sér fækkun fimmtíu starfsmanna bankans á landsvísu, og sameining og lokun útíbúa á sér stað á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík. Áætlað er að um 400 milljónir króna sparist árlega með þessum breytingum. Á landsbyggðinni verður afgreiðslum og útibúum á átta stöðum lokað, eða starfsemi þeirra sameinuð öðrum útibúum.

Lokun útibúa LÍ hefur áhrif á Íslandspóst

Þjónusta Íslandspósts við viðskiptavini sína á Vestfjörðum er í uppnámi eftir að Landsbankinn tilkynnti um rekstrarhagræðingu sína í gær, þar sem samstarf er milli fyrirtækjanna um póstafgreiðslu. Íslandspóstur hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að skyndilegar lokanir á afgreiðslustöðum Landsbankans komi þó ekki til með að hafa óþægindi í för með sér fyrir viðskiptavini fyrirtækisins til frambúðar. Lögð hefur verið fram bráðabirgðaráætlun til að tryggja áframhaldandi póstþjónustu í þeim bæjarfélögum sem urði fyrir niðurskurði Landsbankans.

Hvetur til áhlaups á Landsbankann

Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð, hvetur íbúa á Fáskrúðsfirði og Eskifirði til þess að taka peninga sína út úr Landsbankanum og leggja þá inn á reikninga annarsstaðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.