Erlent

"Facebook, Uh, Oh, Oh" - Framlag San Marínó í Eurovision vekur athygli

Framlag San Marínó í Eurovision hefur vakið mikla athygli á internetinu og samskiptamiðlum. Lagið heitir „Facebook, Uh, Oh, Oh" og fjallar um unga stúlku sem er forfallinn Facebook notandi.

Horft hefur verið á myndbandið rúmlega 130.000 sinnum á vefsíðunni YouTube en það birtist á síðunni á föstudaginn. Það er söngkonan Valentina Monetta sem flytur lagið.

En það eru ekki allir jafn hrifnir af laginu. Stjórnendur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva segja að texti lagsins brjóti í bága við reglur keppninnar um háttsemi með því að vísa 11 sinnum í samskiptasíðuna í söngtexta lagsins.

Textinn fjallar um stúlku sem skoðar Facebook-síðu sína af mikilli kappsemi. Hún lýsir síðan vandræðalegum fundum við karlmenn eftir að hafa hitt þá á samskiptasíðunni.

„Do you wanna be more than just a friend? Do you wanna play cyber-sex again?" spyr Monetta í laginu.

Stjórnendur söngvakeppninnar hafa einnig bent á að Monetta klæðist bláum og hvítum fötum í myndbandinu en það eru einkennislitir Facebook. Á einum tímapunkti birtist Monetta beinlínis inn í Facebook og syngur.

Farið er fram á að aðstandendur lagsins fjarlægi allar vísanir í samskiptasíðuna.

Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×