Innlent

Stærsta verk í vegagerð eftir hrun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ingileifur Jónsson verktaki átti lægsta tilboð í þverun tveggja fjarða á Vestfjörðum, upp á rúma tvo milljarða króna. Þetta er stærsta verk sem Vegagerðin ræðst í eftir hrun.

Verkið felur í sér endurbyggingu þjóðvegarins um sunnanverða Vestfirði en um leið verður 24 kílómetra kafli styttur niður um átta kílómetra með því að leggja veginn þvert yfir Kjálkafjörð og Mjóafjörð, bæði með brúm og uppfyllingum. Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu og voru tilboð opnuð hjá Vegagerðinni í dag.

Ingileifur Jónsson reyndist eiga lægsta boð, upp á 2.154 milljónir króna, eða 83% af nærri 2,6 milljarða króna kostnaðaráætlun. Suðurverk átti næstlægsta boð, 2.487 milljónir. Þrír aðrir aðilar, Ístak, ÍAV og Já-verk og Hagtak samangerðu einnig tilboð og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun.

Í fréttum Stöðvar 2 birtist viðtal við Ingileif Jónsson lægstbjóðanda og einnig Hrein Haraldsson vegamálastjóra sem segir að þetta hafi langþráð útboð, bæði fyrir Vegagerðina og Vestfirðinga, en verktími er áætlaður þrjú ár. Ingileifur verktaki þekkir svæðið vel því fyrir tveimur árum lagði hann sextán kílómetra kafla úr Vatnsfirði yfir í Kjálkafjörð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×