Fótbolti

Aðeins börn tólf ára og yngri mega mæta á leik Ajax og AZ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Esteban Alvarado lendir hér í stuðningsmanni Ajax.
Esteban Alvarado lendir hér í stuðningsmanni Ajax. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bikarleikur Ajax og AZ Alkmaar í Hollandi skömmu fyrir jól komst í heimsfréttirnar þegar stuðningsmaður Ajax réðst á Esteban Alvarado, markvörð AZ Alkmaar. Alvarado fékk rautt fyrir að sparka í árásarmanninn og í kjölfarið kallaði þjálfari AZ Alkmaar lið sitt af velli.

Hollenska knattspyrnusambandið dró rauða spjaldið til baka og ákvað að leikurinn skildi fara fram að nýju. Núna hefur hinsvegar verið ákveðið að aðeins börn tólf ára og yngri mega vera í stúkunni þegar leikurinn verður spilaður á Amsterdam Arena 19. janúar næstkomandi.

Nemendum í skólum sem eru í innan við tíu kílómetra fjarlægð frá vellinum verður boðið á leikinn og þurfa krakkarnir ekki að borga neitt fyrir miðana.

Ársmiðahafar Ajax verða að sætta sig við að horfa á leikinn í sjónvarpinu en þeir munu þó fá ókeypis aðgang að netsíðunni Eresdivisie Live þar sem verður hægt að horfa á leikinn á vefnum.

Ajax hafði óskaði eftir því að konum yrði líka hleypt inn eins og í Tyrklandi á síðasta ári en því var hafnað af jafnréttisástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×