Innlent

Þriðji leigjandinn flytur inn í Hörpu

BBI skrifar
Stórsveit Reykjavíkur flytur í dag inn í Hörpu og verður þar með þriðji leigjandinn í húsinu, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperunni. Hljómsveitin mun marsera inn í húsið í hádeginu í dag með pompi og prakt.

Að undanförnu hafa borist fréttir um mikinn hallarekstur á Hörpu og stefnir í að rekstrarkostnaður í ár fari rúmum 400 milljónum fram úr áætlunum. Rekstraraðilar Hörpu lögðu fyrir stuttu síðan til að leigan hjá Sinfóníuhljómsveitinni og Íslensku óperunni yrði tvöfölduð. Með þriðja leigjandanum munu leigutekjurnar aukast að einhverju leyti.

Hljómsveitin heldur innreið sína í húsið í dag, marsera beint upp á aðra hæð þar sem hún tekur tvö lög. Í kjölfarið verður leigusamningur undirritaður.

Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð í febrúar árið 1992 og hefur því nýlega fagnað tuttugu ára afmæli. Hún hefur fengið afbragðs dóma gagnrýnenda fyrir leik sinn. Sveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem jazz flytjandi ársins og 2011 fyrir jazzplötu ársins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×