Fótbolti

Dregið í umspil EM 2013 í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir.
Dóra María Lárusdóttir. Mynd/Daníel
Dregið verður í umspil EM 2013 í hádeginu í dag og er Ísland eitt sex liða í pottinum. Þrjú af þessum liðum komast áfram í úrslitakeppnina sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári.

Ísland tapaði í fyrrakvöld fyrir Noregi, 2-1, í Ósló sem þýddi að liðið endaði í öðru sæti í sínum riðli og þurfti af þeim sökum að fara í umspilið en það fer fram í lok næsta mánaðar.

Liðunum hefur verið skipt í tvo styrkleikaflokka til að forðast það að bestu liðin verði dregin saman. Af liðunum sex er Ísland efst í stigagjöf UEFA sem byggir á árangri síðustu ára. Stelpurnar okkar eru því í efri styrkleikaflokknum ásamt Spáni og Rússlandi.

Andstæðingur Íslands verður því lið úr neðri styrkleikaflokknum en hann skipa Skotland, Úkraína og Austurríki. Dregið verður í höfuðstöðvum UEFA klukkan 10.45 og verður hægt að sjá beint vefstreymi á Uefa.com.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×