Fótbolti

Einn þriggja leikmanna sem mátti ekki selja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Noregi á föstudag.nordic photos/getty
Emil Hallfreðsson er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Noregi á föstudag.nordic photos/getty
Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í fótbolta, segist vera hæstánægður í herbúðum ítalska B-deildarliðsins Hellas Verona. Liðið var ekki langt frá því að komast upp í úrvalsdeildina í vor en það endaði í fjórða sæti eftir að hafa verið í toppbaráttu allt tímabilið og tapaði svo í undanúrslitum umspilskeppninnar.

„Við erum með mjög breytt lið frá síðasta tímabili enda sextán nýir leikmenn í liðinu og tólf sem fóru. Þetta er því í raun nýtt lið og er enn verið að stilla strengina saman. Við gerðum jafntefli í fyrstu tveimur leikjunum en fyrir fram vorum við taldir líklegastir til að fara upp ásamt einu öðru liði," sagði Emil fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í gær.

„Ég á von á því að þetta verði erfiður vetur. Serie B er þannig deild að allir geta unnið alla. Þetta verður mikil barátta og gaman að sjá hvernig þetta fer."

Emil stóð sig vel á síðasta tímabili og var orðaður við nokkur önnur lið, til að mynda í ítölsku úrvalsdeildinni. Hann hélt þó kyrru fyrir í herbúðum Hellas Verona.

„Ég var víst ekki til sölu hjá félaginu. Það tók nýr forseti við félaginu og hann gaf það út að það væru þrír leikmenn sem mætti ekki fara – ég og tveir aðrir. Það var víst áhugi hjá einhverjum liðum en það kom ekki til greina að selja mig."

Hann segist vera ánægður í Verónu.

„Já, mjög ánægður. Það var svekkjandi að komast ekki upp fyrir en ég er ótrúlega sáttur við lífið og tilveruna. Ég hef ekki yfir miklu að kvarta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×