Fótbolti

Úkraínumenn nálægt sigri á Wembley - Lampard jafnaði úr víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Frank Lampard tryggði Englendingum 1-1 jafntefli á móti Úkraínu á Wembley í kvöld í fyrsta heimaleik Englendinga í undankeppni HM 2014. Jöfnunarmark Lampard kom úr vítaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok eftir að Úkraínumenn voru búnir að vera yfir í 40 mínútur.

Steven Gerrard, fyrirliði enska landsliðsins, fékk sitt annað gula spjald á 89. mínútu og Englendingar voru því manni færri í lok leiksins.

Englendingar unnu 5-0 útisigur á Moldavíu í fyrsta leik sínum en úkraínska liðið var aftur á móti að spila sinn fyrsta leik í undankeppninni.

Oleh Blokhin, þjálfari Úkraínu, lét ýmislegt flakka í aðdraganda leiksins og gerði lítið úr enska landsliðinu sem hann álítur að sé ekki lengur í hópi bestu knattspyrnulandsliða Evrópu. Það leit lengi vel út fyrir það að hann ætlaði að takast að standa við stóru orðin.

Yevheniy Konoplyanka kom Úkraínu yfir á 38. mínútu leiksins þegar hann skoraði glæsilegt mark með frábæru borgaskoti fyrir utan teig. Konoplyanka leikur með Dnipro Dnipropetrovsk í heimalandinu. Úkraínumenn fengu tækifæri til að komast í 2-0 en nýttu þau ekki og Englendingum tókst síðan að tryggja sér stig.

Danny Welbeck komst nálægt því að jafna á 81. mínútu þegar hann átti skot í stöngina úr fínu færi í vítateignum. Welbeck átti síðan mikinn þátt í að Englendingar fengu víti þegar dæmd var hendi á Úkraínumenn í vítateignum. Frank Lampard skoraði af öryggi úr vítinu og er því þegar kominn með þrjú mörk í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×