Enski boltinn

Tekur Scholes eitt ár til viðbótar?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Scholes og Alex Ferguson.
Paul Scholes og Alex Ferguson. Nordic Photos / Getty Images
Svo gæti farið að Paul Scholes spili með Manchester United í eitt ár til viðbótar ef marka má frétt enska götublaðsins The Sun í dag.

Þar er það fullyrt að Scholes hafi tilkynnt Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóra United að hann hafi í hyggju að spila með liðinu í eitt ár til viðbótar og skrifa undir samning þess efnis.

Scholes hefur áður gefið í skyn í viðtölum að líklegt sé að hann muni leggja skóna á hilluna eftir langan og glæsilegan feril hjá United.

En samkvæmt þessu mun hann fylgja í fótspor Ryan Giggs sem hefur þegar skrifað undir eins árs framlengingu á samningi sínum.

Giggs er 37 ára gamall en þeir Scholes og Gary Neville, sem lagði skóna á hilluna fyrr í mánuðinum, eru ári yngri.

Ef Scholes tekur eitt tímabil til viðbótar verður það hans sautjánda í röðinni með Manchester United, þar sem hann hefur verið allan sinn feril.

Hann hefur verið í byrjunarliði United í ellefu leikjum á tímabilinu en Ferguson telur samt að hann sé mikilvægur hlekkur í liðinu. Hann er sagður fá 60 þúsund pund í vikulaun auk bónusa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×