Enski boltinn

Viðtalið umdeilda við Torres í heild sinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svo virðist sem að Fernando Torres hafi í raun ekki gagnrýnt liðsfélaga sína fyrir að vera of hæga, eins og fullyrt var reyndar á hans eigin vefsíðu nú fyrir skömmu. Málið virðist vera stórfurðulegt og byggt á algerum misskilningi.

Andre-Villas Boas, stjóri Chelsea, brást illa við fregnum að Torres hafi í nýlegu viðtali gagnrýnt suma liðsfélaga sína hjá Chelsea fyrir að vera gamlir og hægir. Hann sagði á blaðamannafundi í gær að félagið myndi rannsaka málið ítarlega og til þess þyrfti það að fá upptöku af viðtalinu sjálfu.

Hið furðulega er að viðtalið umrædda birtist á heimasíðu Torres sem sjálfur ber við algeru sakleysi. Orð hans hafi verið mistúlkuð.

Vefsíðan Football365 fullyrðir í dag að viðtalið hafi verið tekið fyrir þátt um spænsku úrvalsdeildina en það má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Viðtalið er bæði tekið á spænsku og ensku og virðist vandamálið vera tilkomið vegna misskilnings ónefnds aðila sem að þýddi viðtalið yfir á ensku fyrir heimasíðu Torres.

Í stað þess að nota upprunaleg ummæli Torres í umræddu viðtali, sem voru einmitt á ensku í þessu tilfelli, notaðist hann við þýðingu einhvers annars sem hafði þýtt viðtalið yfir á spænsku.

Eins og sést í viðtalinu, eftir um tvær og hálfa mínútu, segir Torres ekkert um að félagar hans hjá Chelsea séu gamlir og hægir. Ummælin tengjast komu Juan Mata til félagsins og segir Torres að bæði hann og Daniel Sturridge muni gefa Chelsea tækifæri til að sækja hraðar á andstæðinginn.

Þetta ætti að róa knattspyrustjórann Andre Villas-Boas og Fernando Torres andar því væntanlega léttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×