Enski boltinn

Xavi: Scholes er mín fyrirmynd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Miðjumaðurinn frábæri hjá Barcelona, Xavi, segist vera afar spenntur fyrir þeirri tilhugsun að fá wayne Rooney til Barcelona. Xavi væntir þess að Cesc Fabregas komi til félagsins á endanum.

Rooney hefur oft talað fallega um Barcelona og viðurkenndi að hafa staðið upp í stofunni heima hjá sér og klappað er Barcelona lagði Real Madrid 5-0 fyrr í vetur.

"Rooney er einstakur leikmaður. Hann gæti vel spilað fyrir Barcelona. Ég vona að fólk missi sig samt ekki og fari að misskilja orð mín. Ég er ekki að tala um að félagið sé að fara að kaupa hann heldur er ég að meina að hann sé leikmaður sem á heima í okkar fótbolta," sagði Xavi en Börsungar undirbúa sig nú fyrir Fabregas og félaga í Arsenal.

"Ég skil vel að Fabregas vilji koma aftur til okkar. Vandamálið núna er að hann er orðinn mjög dýr. Ég held samt að knattspyrnumaður muni enda þar sem hann vill vera. Hann hlýtur að enda í okkar herbúðum," sagði Xavi sem ber mikla virðingu fyrir Paul Scholes.

"Hann er mín fyrirmynd og ég meina það. Ég hef ekki séð betri miðjumann síðustu 15 til 20 ár. Ég hef rætt hann við Xabi Alonso sem er sammála mér í því að hann sé einstakur. Hann hefur allan pakkann. Síðustu sendinguna, mörkin, styrkinn, tapar ekki boltanum og hefur gríðarlega yfirsýn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×