Enski boltinn

Sven-Göran búinn að tala við Beckham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í leik með LA Galaxy.
David Beckham í leik með LA Galaxy. Nordic Photos / Getty Images
Sven-Göran Eriksson, knattspyrnustjóri Leicester, hefur þegar rætt þann möguleika við David Beckham að kappinn gangi til liðs við enska B-deildarfélagið þegar að félagaskiptaglugginn opnar um áramótin.

Eriksson og Beckham eru miklir mátar eftir að sá fyrrnefndi var þjálfari enska landsliðsins í upphafi aldarinnar.

Beckham er nú á mála hjá LA Galaxy í Bandaríkjunum sem samningur hans við félagið rennur út í næsta mánuði. Það er búist við því að Beckham muni þá snúa aftur í evrópska knattspyrnu.

Beckham hefur einnig verið orðaður við Tottenham og Queens Park Rangers en Erikson hefur þar að auki áhuga á að bjóða honum þjálfarahlutverk hjá Leicester.

„Ég hef þegar rætt þetta við hann,“ sagði Erikson við enska fjölmiðla. „Hann hefur aldrei neitað mér. Hann segir bara: „Sven, við skulum sjá til, við skulum sjá til.“

„Stóra spurning er hvort að hann vilji halda áfram að spila þegar að samningurinn við LA Galaxy rennur út. Ef hann vill halda áfram mun ég reyna aftur að tala við hann. En ég tel að flest félög í Englandi myndu vilja fá hann. Hann er góður knattspyrnumaður myndi gera mikið fyrir ímynd félagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×