Fótbolti

Stórmót í knattspyrnu verða að vera í opinni dagskrá í Bretlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard fagnar marki í landsleik.
Steven Gerrard fagnar marki í landsleik. Nordic Photos / Getty Images
Breska ríkisstjórnin hefur fengið úr því skorið hjá dómstóli Evrópusambandsins að hún geti fyrirskipað að stórmót í knattspyrnu verði sýnd í opinni dagskrá þar í landi.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, og Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, létu reyna á ákvörðun Breta fyrir dómstólnum en fengu ekki sínu framgengt.

Á þetta við um bæði heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem og Evrópumeistaramótið en breska ríkisstjórnin metur að bæði mót séu það mikilvæg fyrir breska þjóð að þær beri að sýna í ólæstri dagskrá í sjónvarpi.

Niðurstaða dómstólsins þýðir að önnur sambandsríki ESB geta gert slíkt hið sama og krafist þess að báðar keppnir verði sýndar í opinni dagskrá.

Fari önnur lönd eftir þessu fordæmi þýðir þetta að FIFA og UEFA geta ekki endilega selt sjónvarpsrétt keppnanna hæstbjóðanda þar sem áskriftarstöðvar geti ekki boðið í þær.

Báðar keppnir hafa reyndar alltaf verið sýndar í opinni dagskrá í Bretlandi og nú er ljóst að það mun ekki breytast.

Umræðan þykir minna á þá umræðu sem ríkti hér á landi í aðdraganda HM í handbolta sem fór fram í Svíþjóð í síðasta mánuði. Keppnin var sýnd á Stöð 2 Sport og voru flestir leikir í læstri dagskrá.

Opnunarleikurinn, úrslitaleikurinn og nokkrir leikir íslenska landsliðsins voru þó í opinni dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×