Enski boltinn

Redknapp: Við verðum að halda Gareth Bale

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale
Gareth Bale Mynd/AP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að félagið haldi áfram að hafna tilboðum evrópsku stórliðanna í Gareth Bale því það sé lykilatriði fyrir framtíðaruppbyggingu Tottenham að halda velska landsliðsmanninum á White Hart Lane.

Bale er 21 árs gamall og hefur farið á kostum með Tottenham-liðinu í vetur hvort sem er í ensku úrvalsdeildinni eða í Meistaradeildinni. Bale er þegar kominn með 12 mörk og 11 stoðsendingar í 34 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

„Við megum alls ekki selja Gareth Bale. Með því að selja hann þá værum við að senda öllum röng skilaboð og þetta gæti orðið eins og þegar West Ham seldi Rio Ferdinand til Leeds United á sínum tíma," sagði Harry Redknapp.

„Rio fór frá West Ham og það var nánast upphafið að endanum því í kjölfarið fóru þeir Frank Lampard og Joe Cole og áður en menn vissu af þá var nánast allt liðið farið. Það fóru allir að efast um metnað félagsins og þannig gæti þetta farið hjá okkur ef að Bale yrði seldur," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×