Fótbolti

Framtíðarstjörnur Brassa kláruðu Argentínu í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho tók við bikarnum í nótt.
Ronaldinho tók við bikarnum í nótt. Mynd/AFP
Ungstirnin Lucas og Neymar skoruðu mörk Brasilíu í 2-0 sigri á Argentínu í vináttulandsleik í Brasilíu í nótt en báðar þjóðir tefldu einungis fram leikmönnum sem spila í heimalandinu.

Brasilíumenn tryggðu sér þar með sigur í Súperklassíkbikar Ameríku sem var í boði eftir tvo leiki liðanna heima og að heiman. Þjóðirnar gerðu markalaust jafntefli í Argentínu fyrir tveimur vikum.

Lucas skoraði fyrra markið á 54. mínútu og Neymar innsiglaði síðan sigurinn af stuttu færi á 75. mínútu. Báðir leikmennirnir eru bara 19 ára og þeir eru eftirstóttir af evrópskum stórliðum.

„Það er frábært að fá að spila með þessum unglingum," sagði Ronaldinho eftir leikinn en hann hefur fengið annað tækifæri með landsliðinu eftir góða frammistöðu heima fyrir.

„Neymar, Lucas og hinir strákarnir eru framtíðin í brasilíska landsliðinu. Ég er hér til að hjálpa þeim með minni reynslu og ég tel að það gangi bara vel," sagði Ronaldinho sem er tólf árum eldri en markaskorarar Brasilíu í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×