Fótbolti

Roberto Carlos verður spilandi þjálfari hjá Anzhi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Carlos.
Roberto Carlos. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rússneska liðið Anzhi Makhachkala hefur rekið þjálfarann Gadzhi Gadzhiyev eftir dapurt gengi liðsins að undanförnu. Það er aðeins einn mánuður síðan Anzhi keypti Samuel Eto'o frá Inter Milan. Brasilíumaðurinn Roberto Carlos verður spilandi þjálfari hjá Anzhi.

Forráðamenn Anzhi gáfu enga formlega skýringu á því af hverju Gadzhi Gadzhiyev var rekinn en hann hefur þjálfað liðið frá árinu 2010. Anzhi hefur samt aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum og er í sjöunda sæti í rússnesku deildarinnar sem hefur örugglega mikið um þessa ákvörðun að gera.

Aðstoðarþjálfarinn Andrei Gordeyev og fyrirliðinn Roberto Carlos taka við liðinu tímabundið á meðan félagið leitar að nýjum þjálfara en lið sem borgar Eto'o 3,4 milljarða íslenskra króna í árslaun ætlar sér örugglega að krækja í stórt nafn í þjálfarastólinn.

Roberto Carlos er orðinn 38 ára gamall en hann lék á sínum tíma í níu ár með Real Madrid og í fjórtán ár með brasilíska landsliðinu. Roberto Carlos lék alls 125 landsleiki og varð heimsmeistari með Brasilíu árið 2002. Hann hefur spilað með Anzhi frá því í ársbyrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×