Enski boltinn

Arsenal glutraði niður fjögurra marka forskoti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Walcott og Persie fagna þegar allt lék í lyndi í fyrri hálfleik.
Walcott og Persie fagna þegar allt lék í lyndi í fyrri hálfleik.

Það var mikið fjör í leikjum dagsins í enska boltanum og leikmenn liðanna heldur betur á skotskónum. Manna heitastir voru þó leikmenn Arsenal. Í það minnsta framan af.

Þeir gerðu sér lítið fyrir og skoruðu fjögur mörk á fyrstu 25 mínútunum gegn Newcastle á útivelli. Leik lokið héldu flestir. Svo rosaleg var þessi upprúllun að fjöldi áhorfenda var farinn heim til sín áður en fyrri hálfleikur var allur.

Leikmenn Newcastle lögðu samt ekki árar í bát heldur komu til baka í síðari hálfleik. Ekki hjálpaði til að Abou Diaby lét reka sig af velli á 49. mínútu fyrir fíflaskap.

Newcastle gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn með fjórum mörkum. Tvö markanna reyndar úr vafasömum vítaspyrnum. Það er ekki spurt að því og fjöldi áhorfenda sem var haldinn heim á leið missti af þessari ótrúlegu endurkomu.





Tevez skoraði þrennu í dag.

Carlos Tevez var líka heitur en hann skoraði þrennu á rúmum 20 mínútum. Reyndar tvö úr vítum en það þarf að klára þessi víti líka.

Leikur Everton og Blackpool var hreint út sagt ótrúlegur. Blackpool lenti undir, kom til baka, komst yfir en Everton vann 5-3 þökk sé fjórum mörkum frá Louis Saha sem var hreint út sagt ótrúlegur.

Eiður Smári Guðjohnsen komst á bekkinn hjá Fulham í dag og fékk að hrista sig í uppbótartíma.

Úrslit:

Aston Villa-Fulham 2-2

1-0 John Pantsil, sjm (12.), 1-1 Andy Johnson (52.), 2-1 Kyle Walker (72.), 2-2 Clint Dempsey (78.)

Everton-Blackpool 5-3

1-0 Louis Saha (20.), 1-1 Alex Baptiste (36.), 2-1 Louis Saha (46.), 2-2 Jason Puncheon (62.), 2-3 Charlie Adam (63.), 3-3 Louis Saha (75.), 4-3 Jermaine Beckford (80.), 5-3 Louis Saha (83.).

Man. City-WBA 3-0

1-0 Carlos Tevez, víti (16.), 2-0 Carlos Tevez (22.), 3-0 Carlos Tevez, víti (39.)

Newcastle-Arsenal 4-4

0-1 Theo Walcott (1.), 0-2 Johan Djorou (3.), 0-3 Robin van Persie (9.), 0-4 Robin van Persie (25.), 1-4 Joey Barton, víti (67.), 2-4 Leon Best (75.), 3-4 Joey Barton, víti (82.), 4-4 Ismael Chiek Tioté (86.)

Tottenham-Bolton 2-1

1-0 Rafael van der Vaart, víti (5.), 1-1 Daniel Sturridge (54.), 2ö1 Niko Kranjcar (90.+2)

Van der Vaart klúðraði víti á 7. mín.

Wigan-Blackburn 4-3

0-1 Jason Roberts (22.), 1-1 James McCarthy (35.), 2-1 Hugo Rodallega (50.), 3-1 James McCarthy (55.), 3-2 Christopher Samba (58.), 4-2 Ben Watson, víti (64.), 4-3 David Dunn, víti (81.)










Fleiri fréttir

Sjá meira


×