Innlent

Mestu endurbætur í 43 ára sögu laugarinnar

Hálfberir gestir verða að gera sér að góðu að spígspora um á mótatimbri milli umferðarkeilna um sinn.Fréttablaðið/stefán
Hálfberir gestir verða að gera sér að góðu að spígspora um á mótatimbri milli umferðarkeilna um sinn.Fréttablaðið/stefán
Bakkar Laugardalslaugar eru nú sundurgrafnir og gestir þurfa að leggja lykkju á leið sína til að komast frá einum potti til annars. Þetta tímabundna óhagræði stafar af langmestu endurbótum í 43 ára sögu laugarinnar.

„Það koma yfir 700 þúsund manns í laugina á ári þannig að það er betra að hafa þetta í lagi. Þetta er einn fjölsóttasti samkomustaður landsins,“ segir Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar.

„Það er verið að brjóta upp allan bakkann og setja hitalagnir í gönguleiðir og gúmmíyfirborð á þær,“ segir Logi. „Það er bylting. Á veturna höfum við þurft að salta með grófu korni í allar gönguleiðir. Það er bæði óþægilegt og hættulegt og því hið versta mál,“ segir Logi.

Jafnframt eigi að koma upp nýjum niðurgröfnum „sjópotti“, heitum potti með saltvatni, í norðurenda sundlaugarsvæðisins, og þá sé verið að ljúka viðgerð og málun stúkunnar. Næsta skref sé svo að taka búningsklefana í gegn.

Framkvæmdunum á að ljúka í mars og lagfæringarnar eru gerðar í áföngum svo hægt sé að halda lauginni opinni allan tímann.

Reykjavíkurborg þarf að punga út um 150 milljónum fyrir endurbæturnar. „Auðvitað kostar þetta, en þetta er löngu tímabært,“ segir forstöðumaðurinn Logi Sigurfinnsson. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×