Innlent

Vonir um risaolíulindir á Drekasvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Niðurstöður sem Olíustofnun Noregs kynnti í gær sýna að berglögin á Jan Mayen-hryggnum eru þau sömu og á olíusvæðunum í Noregshafi. Norskir sérfræðingar telja líkur á risaolíulindum á Drekasvæðinu sem geymi stjarnfræðileg verðmæti.

Vísbendinga um olíu var leitað meðal annars með fjarstýrðum kafbáti sem safnaði sýnum af hafsbotni. Leitað var sunnan og vestan Jan Mayen og innan lögsögu Íslands en á stórum hluta svæðisins gildir gagnkvæmur 25% nýtingarréttur ríkjanna í lögsögu hvors annars. Niðurstöðunum lýsir Olíustofnun Noregs sem spennandi og þær hafi verið jákvæðari en menn bjuggust við.

Sérfræðingar norskra fjölmiðla, sem lesa á milli línanna, segja þetta auka trú manna á að þarna sé olía og það ekki í litlu magni heldur vekji þetta vonir um risaolíufund við Jan Mayen. Þannig var fyrirsögn á frétt Verdens Gang um málið: Håper på gigantfunn ved Jan Mayen.

Þessar fréttir styðja við kenningar olíujarðfræðinga eins og Terje Hagevangs hjá Sagex-olíufélaginu, helsta sérfræðings Norðmanna um Jan Mayen-hrygginn, um að þar séu álíka verðmæti í olíu og gasi og finnist í Noregshafi. Slík verðmæti eru svo stjarnfræðileg að jafngildir þjóðarframleiðslu Íslendinga í mörghundruð ár.

Fyrir annað olíuleitarútboð Íslendinga á Drekasvæðinu, sem nú stendur yfir, koma þessar fréttir á besta tíma og hjá Orkustofnun telja menn að þær kveiki áhuga fleiri olíufélaga, eins og nánar má sjá í viðtali í fréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×