Innlent

ÍR og Leiknir mætast í minningarleik um Hlyn Þór

Boði Logason skrifar
Mynd tengist frétt ekki beint. Úr leik Leiknis og Ír árið 2010.
Mynd tengist frétt ekki beint. Úr leik Leiknis og Ír árið 2010.
„Ég var hugsi um síðustu helgi og var að pæla hvað ég gæti gert til þess að heiðra minningu hans og fékk þessa hugmynd," segir Brynjar Ingi Erluson, vinur og fyrrum liðsfélagi Hlyns Þórs Sigurðssonar, sem lést á fóboltaæfingu á ÍR-vellinum fyrir tveimur árum.

Brynjar Ingi vildi heiðra minningu Hlyns Þórs og hafði samband við formann ÍR í vikunni og saman var komist að þeirri niðurstöðu að halda leik á milli nágrannaliðanna ÍR og Leiknis. Hann segir að Hlynur Þór hafi verið samviskusamur drengur sem hafi bæði æft og starfað hjá ÍR. Þá hafi hann einnig þjálfað yngri flokka og knattspyrnuskóla hjá félaginu.

Leikurinn verður á ÍR-vellinum á föstudaginn kemur, 25. nóvember, en þá verða tvö ár liðin frá því að Hlynur Þór hné niður á æfingu. Frítt verður á völlinn en fólki er frjálst að leggja fram framlag í minningarsjóð Hlyns. Leikurinn hefst klukkan 18:00.

„Ég vona að flestir mæti og við stefnum að því að gera þetta að árlegum viðburði," segir Brynjar Ingi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×