Enski boltinn

Barry svekktur að hafa ekki fengið 2000. markið skráð á sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barry fagnar markinu í gær.
Barry fagnar markinu í gær. Nordic Photos / Getty Images
Það eru sjálfsagt fáir stuðningsmenn enska landsliðsins sem óskuðu sér þess að 2000. mark liðsins frá upphafi yrði sjálfsamark. Sú varð engu að síður raunin í gær.

England vann í gær 1-0 sigur á Svíum í vináttulandsleik á Wembley í gær en eina mark leiksins skoraði Svíinn Daniel Majstorovic eftir að hafa skallað fyrirgjöf Stewart Downing í eigið mark. Barry var einnig í boltanum og kom við hann áður en Majstorovic stýrði boltanum í eigið net.

„Ég var að heyra að það ætti að skrá markið sem sjálfsmark,“ sagði Barry í viðtali við fjölmiðla eftir leikinn í gær. „Ég náði að snerta boltann sem rétt svo hafði viðkomu í varnarmanninum.“

„Það hefði verið frábært að fá 2000. markið skráð á sig og því eru þetta vonbrigði. En ég er svo sem ekki mikill markaskorari og mun ekki gráta þetta lengi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×