Fótbolti

Af hverju var Tevez ekki í argentínska landsliðinu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/AP
Carlos Tevez var ekki með argentínska landsliðinu þegar liðið vann 2-1 sigur á Portúgal í Sviss í fyrrakvöld. Sergio Batista, þjálfari Argentínu valdi hann ekki í liðið en það var forseti sambandsins, Julio Grondona, sem sagði mönnum ástæðuna fyrir því.

„Hann var ekki valinn í þennan landsleik af því hann var með stæla og sýndi ekki rétta hugarfarið," sagði Julio Grondona.

„Hann gaf ekki kost á sér í landsliðið en spilaði síðan fyrir félagið sitt skömmu síðar. Þjálfarateymið var ekki hrifið af þeirri ákvörðun hans," sagði Grondona.

Sergio Batista tefldi fram þeim Ezequiel Lavezzi (Napoli), Lionel Messi (Barcelona) og Angel Di Maria (Real Madrid) í framlínunni og tveir þeir síðastnefndu skoruðu mörk liðsins í leiknum.

Carlos Tevez skoraði 4 mörk í 7 landsleikjum á árinu 2010 og hefur alls skorað 12 landsliðsmörk í 58 leikjum. Hann er kominn með 20 mörk í 27 leikjum með City á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×