Enski boltinn

Ancelotti: David Luiz verður einn af bestu varnarmönnum heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti og David Luiz á blaðamannfundi.
Carlo Ancelotti og David Luiz á blaðamannfundi. Mynd/AFP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, hefur mikla trú á brasilíska varnarmanninum David Luiz sem Chelsea keypti frá Benfica fyrir 21 milljón punda á lokadegi félagsskiptagluggans. David Luiz verður í byrjunarliði Chelsea í fyrsta sinn á móti Fulham á mánudaginn.

„David Luiz er mjög góður varnarmaður ekki síst þar sem hann hefur líkamlega burði og tækni til þess að spila hvar sem er í varnarlínunni. Hann hefur aldrei spilað hægri bakvörð en hefur hæfileikana til þess að skila þeirri stöðu," sagði Carlo Ancelotti.

„Hann er Brasilíumaður og hefur auðvitað mjög góða tækni. Hann getur hjálpað okkur við að byggja upp spil frá öftustu línunni," sagði Ancelotti.

„Ég tel að hann verði einn af bestu varnarmönnum heims í næstu framtíð. Hann er ungur en er þegar kominn með frábæra reynslu af því að spila með Benfica í Meistaradeildinni," sagði Ancelotti.

„Við erum náttúrulega svekktir að hann geti ekki spilað í Meistaradeildinni en hann mun hjálpa okkur í ensku úrvalsdeildinni og í enska bikarnum. Með David Luiz innanborðs þá getum við dreift álaginu meira á leikmenn og það ætti að vera ferskari fætur í vörninni okkar," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×