Enski boltinn

Dalglish: Carroll höndlar pressuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Dalglish með nýju mönnunum, þeim Suarez og Carroll.
Kenny Dalglish með nýju mönnunum, þeim Suarez og Carroll. Nordic Photos / Getty Images

Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að Andy Carroll geti vel tekist á við þá pressu sem fylgir því að vera einn dýrasti knattspyrnumaður heims.

Liverpool keypti Carroll á 35 milljónir punda á mánudaginn frá Newcastle en félagið keypti þá einnig Luis Suarez frá Ajax.

Félagið seldi þá framherjann Fernando Torres til Chelsea og því þurfa þeir tveir að fylla í skarðið sem Torres skildi eftir sig.

En margir draga í efa að Carroll sé svo mikils virði í dag þar sem hann er í raun nýbyrjaður að spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég tel að við séum spenntari yfir komu Andy en margir ykkar," sagði Dalglish við enska fréttamenn. „Allar spurningar sem við höfum fengið um hann hafa verið á neikvæðum nótum. Ég sé ekkert neikvætt við það að Andy sé orðinn leikmaður Liverpool."

„Þetta voru frábær kaup hjá okkur, rétt eins og í tilfelli Luis. Þetta er frábært fyrir félagið."

Carroll á við meiðsli að stríða og gat því ekki spilað með Liverpool í sigrinum á Stoke í gær. „Við hlökkum til að byrja að vinna með honum og koma honum í gott form. Ég er viss um að hann sé líka spenntur fyrir því. Hann verður bara að vera meðvitaður um að hann þarf ekki að ofreyna sig."

„Við þurfum því að hugsa vel um hann og hann mun spila þegar hann verður leikfær."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×