Enski boltinn

Eiður um Stoke: Ömurlegur tími og mjög erfiður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Pulis hefur ekki reynst íslenskum knattspyrnumönnum sérlega vel í gegnum tíðina.
Tony Pulis hefur ekki reynst íslenskum knattspyrnumönnum sérlega vel í gegnum tíðina. Nordic Photos / Getty Images
„Satt best að segja þá var ég aldrei í Stoke. Þannig lít ég á þetta þegar ég hugsa til baka," segir Eiður Smári um þá mánuði sem hann var á mála hjá Stoke City í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom til liðsins í lok félagaskiptagluggans í ágústlok í fyrra og samdi við liðið til eins árs.

„Þetta var ömurlegur tími og mjög erfiður," segir hann, en Eiður Smári var svo lánaður til Fulham skömmu eftir síðustu áramót. Þar var hann til loka tímabilsins og fékk meira að spila. Mark Hughes knattspyrnustjóri sagði svo upp störfum og Eiður Smári endaði í Grikklandi.

„Tímasetningarnar hafa allar verið mjög óheppilegar. Hálft tímabilið leið án þess að ég stigi varla inn á völlinn. Ég fann svo aftur leikgleðina hjá Fulham en brotthvarf Marks Hughes frá félaginu batt í raun enda á veru mína þar."

Eiður Smári segist aldrei hafa fengið nein svör um af hverju hann fékk ekki fleiri tækifæri hjá Tony Pulis knattspyrnustjóra. „Nei, ég var heldur ekki að leita eftir þeim. Það myndi ekki friða mig sérstaklega. Ákvörðunin um að fara til Stoke var tekin á síðustu stundu áður en lokað var fyrir félagaskipti og það verður að segjast að sú ákvörðun reyndist ekki rétt, eftir á litið. Þetta var allt saman mjög skrítið."

Pulis sagði margsinnis að Eiður hefði ekki verið í nægilega góðu formi til að komast í liðið. Eiður gefur lítið fyrir það. „Ég skil ekki hvernig er hægt að dæma um það þar sem ég fékk aldrei 90 mínútur. Ég fékk að koma inn á í fimm leikjum fram í október og svo ekki söguna meir. Ég spyr hvort það sé ekki þjálfaranna að koma leikmanninum í form ef þeir vilja að hann spili."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×