Enski boltinn

Lið í ensku úrvalsdeildinni hafa áhuga á Eggerti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eggert Gunnþór verður ekki í vandræðum með að finna sér nýtt félag ákveði hann að yfirgefa herbúðir Hearts.
Eggert Gunnþór verður ekki í vandræðum með að finna sér nýtt félag ákveði hann að yfirgefa herbúðir Hearts. Mynd/Anton
Afar fátt bendir til þess að landsliðsmaðurinn Eggert Gunnþór Jónsson verði áfram í herbúðum skoska félagsins Hearts. Eggert, sem á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið, hefur ekki viljað framlengja við félagið.

„Við erum með samning á borðinu og miðað við stöðuna þar núna kemur ekki til greina að skrifa undir þann samning. Það er bara allt í rugli þarna,“ sagði Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Eggerts.

Eigandi Hearts, Vladimir Romanov, hefur gefist upp á því að gera Hearts að einhverju stórveldi eftir að hafa sett drjúgan skilding í félagið síðustu ár. Hann er að reyna að selja félagið og meðan svo er hreinlega neitar hann að setja meiri pening í það. Fyrir vikið hafa leikmenn félagsins ekki fengið greidd laun síðustu tvo mánuði og ekki er útlit fyrir að þeir fái borgað fyrr en Romanov hefur náð að selja. Áhugasamir kaupendur eru í viðræðum við hann og því fyrr sem salan klárast, þeim mun betra verður það fyrir félagið.

„Eggert var alveg til í að skoða það að vera áfram en á meðan staðan er svona setjum við samninginn í frost. Hann er ekkert búinn að hafna honum en við verðum að sjá til hvað gerist í framhaldinu.“

Eins og áður segir er lítið eftir af samningi Eggerts við félagið og hann getur farið frítt frá Hearts næsta sumar. Eggert er fastamaður í íslenska landsliðinu og hefur staðið sig vel í Skotlandi. Magnús Agnar segir að honum standi ýmislegt spennandi til boða.

„Það þarf ekkert að auglýsa Eggert. Menn vita af honum enda hefur hann staðið sig vel. Það er talsverður áhugi á honum. Sá áhugi er bæði frá Englandi og meginlandi Evrópu,“ sagði Magnús en hvaða lið í Englandi eru þetta? „Ég get ekki sagt nöfn þeirra enda vilja þau það ekki. Þessi lið eru samt í úrvalsdeildinni og B-deildinni á Englandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×