Enski boltinn

Aðeins fimm hafa skorað oftar en Heiðar að meðaltali

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson fagnar einu marka sinna í haust.
Heiðar Helguson fagnar einu marka sinna í haust. Nordic Photos / Getty Images
Heiðar Helguson fór á kostum þegar lið hans, QPR, vann 3-2 sigur á Stoke í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Heiðar skoraði tvö markanna og er nú alls kominn með fimm mörk á tímabilinu.

Heiðar er í 10.-14. sæti yfir markahæstu menn deildarinnar en hann hefur spilað minna en flestir aðrir í kringum hann á listanum og er því í hópi efstu manna þegar kemur að meðalfjölda mínútna á milli marka.

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu er Heiðar í hópi stórstjarna þegar kemur að mínútu á milli marka að meðaltali og slær við mönnum eins og Wayne Rooney og Rafael van der Vaart.

Heiðar skoraði fyrsta markið sitt á tímabilinu í leik gegn Blackburn 15. október síðastliðinn en það var fyrsti leikur hans í byrjunarliði á tímabilinu. Fram að því hafði hann aðeins fengið að spila í samtals 29 mínútur en síðan þá hefur hann haldið sæti sínu í byrjunarliðinu og meira að segja aldrei verið skipt af velli.

Heiðar hefur þakkað knattspyrnustjóranum Neil Warnock traustið með því að skora alls fimm mörk og er hann langmarkahæsti leikmaður liðsins.

Heiðar er næstmarkahæsti Íslendingurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar með 24 mörk. Hann á enn nokkuð í land með að ná Eiði Smára Guðjohnsen sem skoraði 55 mörk í 211 deildarleikjum með Chelsea á sínum tíma. Hann er nú hjá AEK í Grikklandi.

Heiðar hefur þó tekið fram úr Eiði Smára, um stundarsakir að minnsta kosti, þegar kemur að meðalfjölda marka í leik. Heiðar hefur spilað 87 leiki og því skorað 0,28 mörk að meðaltali í leik. Meðaltal Eiðs Smára er litlu minna, eða 0,26 mörk í leik.

Mínútur á milli marka að meðaltali:

1. Edin Dzeko, Manchester City 58,3 (9 leikir; 10 mörk á 583 mínútum)

2. Mario Balotelli, Manchester City 66,7 (8 leikir; 6 mörk á 400 mínútum)

3. Sergio Agüero, Manchester City 72,7 (11 leikir; 10 mörk á 727 mínútum)

4. Robin van Persie, Arsenal 76,4 (12 leikir; 13 mörk á 993 mínútum)

5. Demba Ba, Newcastle 91,8 (11 leikir; 8 mörk á 734 mínútum)

6. Heiðar Helguson, QPR 95,8 (7 leikir; 5 mörk á 479 mínútum)

7. Ivan Klasnic, Bolton 100,7 (10 leikir; 6 mörk á 604 mínútum)

8. Wayne Rooney, Man. United 102,3 (11 leikir; 9 mörk á 921 mínútu)

9. Yakubu, Blackburn 105,6 (7 leikir; 5 mörk á 528 mínútum)

10. Rafael van der Vaart, Tottenham 112 (9 leikir; 6 mörk á 672 mínútum)

11. Javier Hernandez, Man. United 117,8 (11 leikir; 5 mörk á 589 mínútum)


Tengdar fréttir

Heiðar: Varð að nýta tækifærið

Heiðar Helguson átti viðburðaríka helgi í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði tvö mörk í 3-2 sigri sinna manna í QPR gegn Stoke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×