Íslenski boltinn

Doktorar í fallbaráttu á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar fögnuðu með sínum hætti eftir sigurinn á Víkingi, fimmta sigur liðsins í sjö leikjum.
Framarar fögnuðu með sínum hætti eftir sigurinn á Víkingi, fimmta sigur liðsins í sjö leikjum. Mynd/Daníel
Pepsi-deild karla lauk með dramatískri lokaumferð á laugardaginn en eftir hana var ljóst að Þórsarar fylgja Víkingum niður í 1. deildina, FH-ingar taka silfrið annað árið í röð og Eyjamenn sluppu með skrekkinn og héngu í Evrópusætinu þrátt fyrir tap á heimavelli.

Sigurvegarar dagsins voru Fram og Grindavík, sem enn á ný sýndu kunnáttu sína og styrk í fallbaráttuslag í lokaumferð Íslandsmótsins. Fram vann 2-1 sigur á Víkingi en Grindvíkingar unnu óvæntan 2-0 sigur í Eyjum. Þór féll hins vegar eftir 2-1 tap í Keflavík, en Keflvíkingar héldu sæti sínu með þeim sigri.

„Þetta var fyrsta færið mitt í sumar þannig að það var ágætt að skora úr þessu. Á meðan staðan er 0-0 er alltaf möguleiki að stela sigri," sagði Ólafur Örn Bjarnason, spilandi þjálfari Grindvíkinga, en hann var hetja liðsins þegar hann skoraði líklega mikilvægasta markið í lokaumferðinni þegar hann kom Grindavík í 1-0 á 80. mínútu í Eyjum.

Þjálfarinn hélt haus allan tímann
Maðurinn dagsins Óskar Pétursson stóð sig frábærlega í marki Grindavíkur í Eyjum og var líka vel fagnað í leikslok. Fréttablaðið/Óskar Pétur Friðriksson
„Ég hef upplifað bæði að elta titilinn og vera á botninum. Það er meiri spenna á botninum. Þetta var frábært fyrir þjálfarann, sem hélt haus allan tímann," sagði Arnar Gunnlaugsson, sem tryggði Fram sigur á Víkingi. „Þetta var flott lið og svo bættust við tveir erlendir leikmenn sem gerðu gæfumuninn. Þetta var ekki eins og lið sem var að falla. Þetta var lið sem var að spila virkilega sannfærandi," sagði Arnar, sem skoraði tvö sigurmörk á lokasprettinum.

Afrekin eru tvenns konar. Framarar rifu sig upp úr vonlítilli stöðu í byrjun ágúst í það að fá flest stig allra liða í deildinni í síðustu sjö umferðunum. Grindvíkingar fóru hins vegar á einn erfiðasta útivöllinn í deildinni í lokaumferðinni og unnu þar sigur þegar ekkert annað en þrjú stig gat á endanum bjargað þeim frá falli úr deildinni. ÍBV hafði ekki tapað við Hástein síðan í byrjun maí.

„Staðan er auðvitað slæm. Mjög slæm. En það er ekkert hægt að hætta, menn verða að mæta áfram og spila fótboltaleiki," sagði súr og svekktur Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, í viðtali í Fréttablaðinu eftir að liðið hans glutraði niður forystu á síðustu mínútunni gegn Stjörnunni í 15. umferð 15. ágúst. Fram var þá með einn sigur og átta stig eftir fimmtán leiki og átta stigum frá öruggu sæti.

Framarar hafa nú bjargað sér 9 sinnum í 10 tilraunum í lokaumferð efstu deildar karla en það má segja að þetta sé í þriðja sinn sem Framarar rísa upp frá dauðum. Það má bera þetta sumar við sumrin 2001 og 2003 þegar staðan var einnig mjög svört á botni deildarinnar í lok júlí.

Lokaspretturinn þá var hins vegar glæsilegur eins og í ár þegar liðið fékk 16 stig út úr síðustu 7 leikjum sínum. Fram fékk 16 stig út úr síðustu 8 leikjunum 2001 og endaði á því að vinna 5-3 sigur á Keflavík í lokaumferðinni. Fram fékk 15 stig út úr síðustu 7 leikjum sínum sumarið 2003 og endaði á því að vinna 1-0 sigur á Þrótti í lokaumferðinni.

Grindvíkingar, sem björguðu sér í sjöunda sinn í átta tilraunum, jöfnuðu met Framara með því að bjarga sér í fjórða sinn í lokaumferð eftir að hafa setið í fallsæti fyrir síðustu umferðina. Grindavík hafði einnig komið sér upp úr fallsæti í lokaumferðunum 1998, 1999 og 2005.

Eiga fullt erindi í þessa deildÞórsarar sátu aðeins í fallsætinu í rúmar tólf mínútur í lokaumferðinni, í tvær mínútur í fyrri hálfleik áður en þeir náðu að minnka muninn í 2-1 í Keflavík og svo síðustu tíu mínúturnar eftir að Grindavíkurliðið komst yfir í Eyjum. „Við höfum verið í vandræðum á útivelli í sumar og á því varð engin breyting í dag. Það er sárt að falla því mér finnst strákarnir hafa sýnt í sumar að þeir eigi fullt erindi í þessa deild," sagði Páll Gíslason, þjálfari Þórs.

Kannski voru það litlu breytingarnar sem höfðu bestu áhrifin. Víkingar ákváðu að reka þjálfara sinn Andra Marteinsson en það gekk ekkert hjá Bjarnólfi að koma Víkingsliðinu í gang fyrr en það var fallið úr deildinni.

Fyrirliðabandið og Rikki Daða
Mynd/Daníel
Hins vegar virtist það hafa mikil og góð áhrif á Framliðið að Þorvaldur Örlygsson fékk reynsluboltann og Framarann Ríkharð Daðason með á bekkinn og þá blómstraði Óskar Pétursson í Grindavíkurmarkinu eftir að hann fékk fyrirliðabandið á arminn eftir verslunarmannahelgina.

Óskar fékk á sig 22 mörk í fyrstu 9 leikjunum en aðeins 11 mörk í 10 leikjum eftir að hann var gerður að fyrirliða. Óskar hefur átt marga frábæra leiki á lokakaflanum og hefur með því bjargað mörgum stigum; þar á meðal hélt hann Grindavík á floti fram eftir leik í Eyjum.

Þá má ekki gleyma því að Páll Viðar Gíslason „fórnaði" einum leik fyrir ferð til Hollands og eftir það náði Þórsliðið aðeins í 4 stig af 21 mögulegu. Liðið tapaði líka sex síðustu útileikjum sínum og fékk aðeins eitt stig í níu leikjum utan Þórsvallarins eftir sigur á Fram á Laugardalsvellinum í byrjun maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×