Innlent

Gagnaverið tekur til starfa fyrir áramót

vöruskemman Alls komast sex gagnaverseiningar fyrir í vöruskemmu Verne Holding að Ásbrú. Þær geta hýst 50 til 70 þúsund netþjóna.mynd/víkurfréttir
vöruskemman Alls komast sex gagnaverseiningar fyrir í vöruskemmu Verne Holding að Ásbrú. Þær geta hýst 50 til 70 þúsund netþjóna.mynd/víkurfréttir
Fyrstu einingunni í gagnaver Verne Holding á Ásbrú í Reykjanesbæ verður skipað upp í Keflavík innan tveggja vikna. Gert er ráð fyrir því að starfsemi hefjist suður með sjó á næstu mánuðum.

Lisa Rhodes, varaforstjóri markaðs- og sölusviðs fyrirtækisins, sem gengur undir nafninu Verne Global, segir að um nýjung sé að ræða í gagnavörslu. Um forsmíðuð hús er að ræða sem raðað verður inn í skemmu fyrirtækisins á Ásbrú. Einingarnar nefnast Modular Data Center.

„Það er virkilega áhugavert að fylgjast með því hvernig einingunum er komið upp. Þær koma framleiddar í 500 fermetra boxum og sex slíkar komast fyrir í byggingunni okkar á Íslandi,“ segir Rhodes.

Rhodes vill ekki upplýsa um hve mikla fjárfestingu er að ræða en segir hana umtalsverða.

Samkvæmt upplýsingum frá Verne Global verður gagnaverið að Ásbrú hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem ekki gefur frá sér gróðurhúsalofttegundir. Það skýrist af því að verið sé knúið af endurnýjanlegum orkugjöfum.

Jonathan Koomey, prófessor við Stanford-háskóla, segir að rafmagn til gagnavera hafi numið 1,1 til 1,5 prósentum af heimsnotkun á rafmagni árið 2010. Það er minna en búist var við en hefur þó aukist um 56 prósent frá árinu 2005.

kolbeinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×