Fótbolti

Gylfi og Eiður saman í fyrsta sinn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Gylfi Þór SIgurðsson.
Eiður Smári Guðjohnsen og Gylfi Þór SIgurðsson. Samsett mynd/Anton og Valli
Íslenskir knattspyrnuáhugamenn vonast til þess að upplifa tvennt á Laugardalsvellinum laugardaginn 4. júní næstkomandi sem hefur ekki gerst áður í sögu karlalandsliðsins. Í fyrsta lagi að vinna Dani í fyrsta sinn (í 23. tilraun) og svo að sjá tvær stærstu knattspyrnustjörnur landsins, Eið Smára Guðjohnsen og Gylfa Þór Sigurðsson, spila saman með landsliðinu í fyrsta sinn.

„Eru ekki Danir sú þjóð sem okkur langar mest til að vinna? Þeir áttu okkur nú á tímabili og auðvitað viljum við berja á þeim. Það hefur ekki gengið hingað til en við skulum vona að það gerist núna," sagði landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson, sem vill ekkert gefa upp um hvort Eiður Smári eða Gylfi fá að spila saman. „Við skulum aðeins bíða með að stilla upp liðinu en það eiga allir möguleika á því að spila saman í þessu liði. Ég fagna því að Eiður sé kominn aftur í hópinn," segir Ólafur, sem kallaði aftur á Eið Smára Guðjohnsen, sem var síðast með á móti Portúgal í október og hefur aðeins spilað tvo af síðustu tíu landsleikjum.

„Eiður er frábær fótboltamaður eins og við öll vitum. Ég hef aldrei efast um hæfileika hans í fótbolta. Nú hefur hann verið að spila nokkuð reglulega með sínu liði og það var aldrei vafi í mínum huga að ég myndi taka hann inn í hópinn. Við höfum ekki efni á að vera án hans," segir Ólafur.

Ísland hefur spilað sjö landsleiki síðan Gylfi Þór fékk fyrsta tækifæri sitt og Gylfi hefur spilað fjóra af þeim. Eiður Smári hefur aðeins verið með í tveimur og það voru einmitt leikir sem Gylfi missti af vegna verkefna með 21 árs landsliðinu.

Íslenska landsliðið þurfti að sætta sig við 0-1 tap fyrir Dönum á Parken í september þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma.

„Það er alltaf sárt að tapa og það er ennþá sárara að tapa eins og við töpuðum þeim leik. Við ætlum okkur að koma í veg fyrir það núna," segir Ólafur en hann segir að Danir séu með sterkt lið þó að þeir hafi ekki verið eins öflugir undanfarið og árin á undan.

„Auðvitað líta þessar þjóðir þannig á okkur að þær ætla að taka þrjú sjálfsögð stig á móti okkur. Ég veit að Danir, Portúgalar og Norðmenn gera það. Við ætlum okkur að hafa áhrif á úrslitin í þessum riðli og hluti af því er að taka stig á móti þessum þjóðum," segir Ólafur sem verður án þeirra Grétars Rafns Steinssonar og Sölva Geirs Ottesen sem hafa verið fastamenn í liðinu þegar þeir hafa getað spilað. Sölvi er meiddur en Grétar Rafn er ekki með vegna persónulegra ástæðna. Ólafur vildi ekki gefa upp hvað það væri en sagði að það hefði verið sín ákvörðun að velja ekki Grétar.

„Hvorki Grétar né Sölvi hafa spilað síðustu leiki hjá okkur og vörnin hefur haldið ágætlega í þeim leikjum. Auðvitað er alltaf slæmt að missa góða leikmenn en við eigum sem betur fer góða leikmenn í þessar stöður," sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×