Íslenski boltinn

Guðjón: Fór í Val til að bæta mig sem fótboltamann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson hefur byrjað vel með Val.Fréttablaðið/anton
Guðjón Pétur Lýðsson hefur byrjað vel með Val.Fréttablaðið/anton
Valsmaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson er besti leikmaður 2. umferðar Pepsi-deildar karla að mati Fréttablaðsins. Guðjón Pétur átti mjög góðan leik í 2-0 sigri Vals í Grindavík og skoraði flottasta mark umferðarinnar. Guðjón er búin að skora í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum i Valsbúningum og Valsmenn eru einir á toppnum með fullt hús.

„Það er alltaf gaman að skora mörk. Ég hef mjög gaman af því að láta vaða enda sást það í vetur þegar ég setti nokkur,“ segri Guðjón sem sér ekki eftir því að hafa farið í Val.

„Ég hef alltaf haft trú á sjálfum mér og stefndi alltaf hærra þannig að þetta er mjög gaman. Ég fór aðallega í Val til þess að bæta mig sem fótboltamaður og fá alvöru leiðsögn frá alvöru þjálfurum. Það hefur heldur betur skilað sér. Ég hef fengið mikið af aukaæfingum í vetur og hef æft mjög vel,“ segir Guðjón en það er kannski engin tilviljun að hann hafi komist strax inn í hlutina á Hlíðarenda.

„Ég þekkti marga stráka í liðinu áður en ég kom. Við erum allir góðir félagar og höfum verið mikið saman í vetur. Við höfum verið að gera allskonar hluti í kringum félagið og höfum meðal annars verið að hringja á allskonar Valsara og reynt að fá þá á völlinn,“ segir Guðjón.

„Við erum með gott lið en við erum líka tilbúnir að vinna fyrir hvorn annan og það er kannski aðalatriðið,“ segir Guðjón sem verður áfram í stóru hlutverki þegar Valsmenn halda upp á 100 ára afmælisdaginn með því að taka á móti ÍBV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×