Íslenski boltinn

Saka Frey um óheiðarleg vinnbrögð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Freyr Alexandersson, til hægri, segir ekkert hæft í ásökunum KR-inga. Hann hafi ekki rætt við Ingólf um að koma í Val. fréttablaðið/anton
Freyr Alexandersson, til hægri, segir ekkert hæft í ásökunum KR-inga. Hann hafi ekki rætt við Ingólf um að koma í Val. fréttablaðið/anton
Hinn 18 ára gamli leikmaður KR, Ingólfur Sigurðsson, setti allt á loft upp í Vesturbænum er hann ákvað að koma umkvörtunum sínum um félagið á framfæri á óvenjulegan. Hann setti inn færslu á samskiptasíðuna Twitter þar sem hann sagði ungum og efnilegum leikmönnum að halda sér frá KR.

Ingólfur fjarlægði síðar færsluna en viðurkenndi í samtali við fótbolti.net að hafa sett færsluna inn viljandi þar sem hann sé til í að gera allt til þess að losna frá KR. Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, sagði við Fréttablaðið að framkoma Ingólfs valdi sér vonbrigðum. Hann segir þó aðstoðarþjálfara Vals, Frey Alexandersson, hafa skipt sér fullmikið af málinu.

„Þetta kom okkur á óvart. Heimildir okkar, frá Ingólfi sjálfum, herma að Valsmenn hafi verið að ræða við hann. Hann er samningsbundinn KR og það er því ólöglegt. Ingólfur segir að það sé Freyr aðstoðarþjálfari. Við höfum sent inn formlega kvörtun til KSÍ vegna þessa máls,“ sagði Kristinn en hann hefur ekkert rætt við Val vegna málsins.

„Drengurinn er samningsbundinn KR og það vita allir að svona á ekki að vinna hlutina. Samkvæmt okkur upplýsingum er búið að ræða við hann um hugsanleg félagsskipti í Val. Eina sem við getum gert í því er að senda inn kvörtun. Þetta eru samt kaldar kveðjur til annarra sem eru í kringum hann í KR.“

Fréttablaðið hafði samband við Frey og bar þessar ásakanir KR undir hann. „Ég kem af fjöllum og þetta er úr lausu lofti gripið. Ég hef ekki rætt við Ingólf um hans málefni síðan í janúar er við reyndum að fá hann. Þá fór hann í KR. Þetta er rangt,“ sagði Freyr. „Mér finnst ömurlegt að KR sé að klína þessu á mig. Þetta er annað hvort misskilningur eða lygi.“

Ingólfur er samningsbundinn KR út leiktíðina og verður að teljast afar ólíklegt að hann eigi afturkvæmt í leikmannahóp KR eftir upphlaupið.

„Flestir geta eflaust sagt sér að það sé ekki mikill áhugi að vinna með manni sem kemur svona fram. Við förum yfir það í rólegheitum hvað gerist næst í hans málum,“ sagði Kristinn en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kemur vel til greina hjá KR að lána Ingólf. Valur er þó ekki möguleiki sem stendur en Þór á Akureyri fær leikmanninn hugsanlega að láni. Hvort Ingólfur vilji fara þangað er önnur saga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×