Íslenski boltinn

Guðmundur Reynir líklega með KR í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Reynir Gunnarsson.
Guðmundur Reynir Gunnarsson. Mynd/Arnþór
Allt útlit er fyrir að Guðmundur Reynir Gunnarsson muni spila með KR í sumar en hann hefur fengið sig lausan frá sænska félaginu GAIS.

Þetta staðfesti Guðmundur Reynir í samtali við Vísi. „Ég á þó sjálfur eftir að semja við KR en þetta er mjög líklegt. En eins og staðan er núna þá vil ég frekar vera í KR en GAIS.“

Greint var frá því í gær að Guðjón Baldvinsson hafi gengið til liðs við KR eftir að hafa fengið sig lausan frá GAIS í Svíþjóð.

„Mér líst mjög vel á að spila hér heima í sumar og vil ég gera það. Mér líður mjög vel á Íslandi og hef nóg að gera,“ sagði Guðmundur Reynir.

Guðmundur Reynir er 22 ára gamall og var lánaður til KR frá GAIS á síðasta tímabili. Hann er uppalinn hjá félaginu og á að baki 34 leiki í efstu deild með KR.

Hann mun funda fljótlega með KR-ingum og skýrist þetta endanlega á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×