Enski boltinn

Sögulegt mark hjá Ormerod

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brett Ormerod er fyrsti leikmaðurinn í sögunni sem hefur náð að skora í öllum fjórum efstu deildum Englands með einu og sama liðinu.

Ormerod skoraði fyrir Blackpool í 3-1 sigri liðsins á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann skoraði hin mörkin þegar hann var á mála hjá liðinu frá 1997 til 2001 er liðið lék í hinum þremur deildunum.

„Það er alltaf skemmtilegt að eiga met og nú getur fólk hætt að spyrja mig hvenær ég ætli að skora þetta mark,“ sagði hann við enska fjölmiðla eftir leikinn.

„Ég hef nú ekki verið að missa svefn yfir þessu enda enginn heimsendir ef ég hefði ekki náð að skora þetta mark. Ég hef skorað mörg mörk fyrir Southampton í ensku úrvalsdeildinni áður og veit því að það er eitthvað sem ég get vel gert.“

„Þetta er nú búið og vonandi get ég haldið áfram á þessari braut."

Ormerod skoraði 62 mörk fyrir Blackpool áður en hann var seldur til Southampton fyrir 1,75 milljónir punda í desember árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×