Enski boltinn

Jamie Redknapp kom skilaboðum Beckham til föður síns

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur greint frá því að það var sonur hans, Jamie, sem kom þeim skilaboðum áleiðis að David Beckham hefði áhuga á að spila með liðinu.

Redknapp er nú að skoða þann möguleika á að fá Beckham lánaðan frá LA Galaxy í Bandaríkjunum þar til að tímabilið hefst þar í mars næstkomandi. Annar möguleiki er að Tottenham einfaldlega kaupi Beckham ef vel gengur á lánstímanum.

„Ég hef þó ekki farið til Bandaríkjanna og séð hann spila," viðurkenndi Redknapp.

„En þetta er þó ekki eins og þegar ég var hjá Bournemouth og við fengum George Best til okkar [árið 1983]. Við erum ekki að þessu til að selja miða á völlinn enda er alltaf uppselt hvort eð er."

„Ég hef mikla trú á því að hann gæti reynst okkur góður liðsstyrkur. Við viljum fá einhvern sem getur þjónustað Peter Crouch inn í teignum. Þegar kemur að því að dæla háaum boltum inn á teig er enginn betri í því í heiminum en Beckham."

Hann segir að það hafi verið sonur hans, Jamie Redknapp, sem kom þessu máli af stað.

„Hann ræddi við son minn og þannig kom þetta til. Jamie hringdi í mig og sagði mér að hann hefði rætt við David. Hann mun hafa sagt að hann væri mjög hrifinn af leikstíl Tottenham og þess vegna vilji hann koma hingað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×