Enski boltinn

Hiddink var efstur á óskalista Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Tyrklands.
Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Tyrklands. Nordic Photos / AFP
Umboðsmaður knattspyrnustjórans Guus Hiddink segir að skjólstæðingur sinn hafi verið efstur á óskalista Chelsea áður en Andre Villas-Boas var ráðinn.

Hiddink er samningsbundinn tyrkneska knattspyrnusambandinu þar sem hann er landsliðsþjálfari. Umboðsmaðurinn, Cees van Nieuwenhuzen, segir að Hiddink ræði stöku sinnum við Roman Abramovich, eiganda Chelsea.

„Ég held að Abramovich hafi borið virðingu fyrir því að Guus var samningsbundinn öðrum,“ sagði van Nieuwenhuzen. „Enda vissi Guus sjálfur að hann myndi vera landsliðsþjálfari Tyrklands fram yfir EM 2012 að minnsta kosti. Hann er fagmaður og virðir sínar skuldbindingar.“

„Massimo Moratti, forseti Inter, minntist einnig á það í síðustu viku að hann vildi fá Hiddink. Guus hefur einnig verið orðaður við hin ýmsu stórlið í gegnum tíðina, ekki bara Chelsea.“

Hiddink stýrði Chelsea í nokkra mánuði í lok tímabilsins 2009, samhliða starfi sínu sem landsliðsþjálfari Rússlands. Eftir það var Carlo Ancelotti ráðinn en hann var rekinn eftir tímabilið nú í vor.

Villas-Boas tók við starfinu á endanum en Hiddink hafði verið sterklega orðaður við það svo vikum og mánuðum skipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×