Enski boltinn

Mancini haggast ekkert: Tevez fer ekki á láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur ítrekað það að það komi ekki til greina að lána Carlos Tevez í janúar. Tevez dvelur nú í Argentínu á meðan að City-menn leita af kaupanda en argentínski framherjinn hefur ekkert spilað eða æft með City síðan eftir heimsfræga neitun sína í München í lok september.

AC Milan vill fá Tevez á láni og hefur náð samkomulagi við leikmanninn sjálfan. Forráðamenn félagsins ætla að hitta Manchester City menn á fimmtudaginn en það er nokkuð ljóst að þeir verða að taka upp veskið ætli þeir sér að stilla Tevez upp í framlínu sinni eftir áramót.

„Ég vona að við getum fundið góða lausn fyrir okkur og Carlos. Við viljum að Carlos komi til baka frá Argentínu til að spila fótbolta og besta lausnin er að selja hann. Við getum ekki látið hann fara á láni," sagði Roberto Mancini.

„Þegar Manchester City kaupir leikmann þá þurfum við að eyða miklum pening. Þegar við ætlum hinsvegar að selja menn þá þurfa þeir alltaf að fara á láni. Þetta er ekki góð þróun," sagði Mancini.

„Manchester City greiddi Carlos mikinn pening í þrjú ár. Það er því rétt að það lið sem vill fá hann, hvort sem það er AC Milan, Juventus, PSG eða Inter, borgi rétt verð fyrr hann," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×