Enski boltinn

Di Canio hvetur til leikaraskaps

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Paolo di Canio, knattspyrnustjóri Swindon Town, er það óánægður með dómgæsluna í ensku D-deildinni að hann ætlar að hvetja sína menn til að reyna að fiska vítaspyrnur með leikarskap.

Swindon tapaði á dögunum fyrir Macclesfield, 2-0, en Di Canio var ósáttur við að fá ekki vítaspyrnu eftir að markvörður Macclesfield virtist brjóta á Matt Ritchie, leikmanns Swindon. Ritchie stóð tæklingu markvarðarins Jose Veiga af sér og var ekkert dæmt.

„Héðan í frá mun ég segja mínum leikmönnum að láta sig detta," sagði Di Canio í samtali við enska fjölmiðla eftir leikinn. „Ég mun nú koma með nýjar áherslur inn í liðið því þetta átti að vera vítaspyrna og rautt spjald."

„Ég vil frekar taka áhættuna á að mínir leikmenn fái gult fyrir leikaraskap. Mínir leikmenn eru þeir einu sem hafa ekki látið sig detta hér og þar um völlinn. Þetta er ekki sanngjarnt en þetta er eina leiðin svo þeir fái eitthvað í sinn hlut."

Swindon er í tólfta sæti deildarinnar með fimmtán stig eftir ellefu leiki. Liðinu gekk illa í upphafi leiktíðar en hafði fyrir leikinn gegn Macclesfield unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.

Di Canio var áberandi leikmaður á sínum tíma en hann lék til að mynda með Lazio, Juventus, Napoli, AC Milan, Celtic og West Ham á löngum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×