Enski boltinn

Dalglish: Það hefði engu máli skipt þótt Carlo Ancelotti hefði spilað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool. Mynd/AFP
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hefur heldur betur náð að snúa við gengi liðsins sem er með fullt hús og hreint mark í síðustu fjórum leikjum eftir 1-0 sigur á Chelsea á Brúnni í gær.

Fernando Torres mætti þarna sínum gömlu félögum en var skipt útaf í seinni hálfleik á sama tíma og Liverpool vann leikinn án þess að nota Luis Suárez og Andy Carroll sem voru keyptir til þess að fylla skarð Torres.

„Ég ætla ekki að tala um leikmenn í öðrum liðum. Við keyptum tvo frábæra leikmenn í Luis Suárez og Andy Carroll. Við bíðum spenntir eftir að sjá þá spila ef þeir þá komast í liðið. Eins og strákarnir spiluðu í þessum leik þá verður það ekki auðvelt," sagði Kenny Dalglish.

„Torres-málið var engin sérstök hvatning fyrir okkur. Það sem aðrir vilja gera með sitt líf er þeirra ákvörðun. Við erum búnir að segja allt sem við getum um hann. Ég kom hingað til að ná í þrjú stig og það hefði engu máli skipt þótt Carlo Ancelotti hefði spilað því ég hefði samt viljað ná í öll þrjú stigin," sagði Dalglish.

Kenny Dalglish vildi hinsvegar ekki segja mikið um næstu framtíð og ítrekaði að hann væri bara kominn til þess að hjálpa til og að hann myndi aldrei standa í vegi fyrir framþróun hjá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×