Enski boltinn

Roberto Di Matteo var hissa á því að vera rekinn frá West Brom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo, fyrrum stjóri West Brom.
Roberto Di Matteo, fyrrum stjóri West Brom. Mynd/AFP
Roberto Di Matteo, fyrrum stjóri West Brom, var mjög sár yfir því að félagið ákvað að reka hann í gær í kjölfarið af 0-3 tapi á móti Manchester City á laugardaginn. Þetta var þrettánda tap liðsins í síðustu átján leikjum og liðið er nú aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

„Ég var mjög hissa og mjög vonsvikinn þegar ég var látinn fara," sagði Roberto Di Matteo í tilkynningu sem var send út á vegum knattspyrnustjórasambandsins.

„Það var ein af stærstu stundunum á mínum ferli að koma liðinu upp í fyrra og án vafa stærsta stundin á mínum stjóraferli. Það er erfitt að spila í ensku úrvalsdeildinni og við erum að spila þar við frábær lið en höfum jafnframt sýnt það að við getum spilað við þau bestu," sagði Di Matteo.

„Fyrir utan fyrstu viku tímabilsins þá hefur liðið ekki setið í fallsæti og framundan voru margir mikilvægir leikir. Ég er mjög svekktur yfir því að fá ekki tækifæri til að leiða liðið í gegnum þessa mikilvægu leiki og reyna að halda West Brom í deildinni," sagði Roberto Di Matteo og óskaði síðan leikmönnum liðsins velfarnaðar á lokakafla tímabilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×