Enski boltinn

Poyet: Evra er grenjuskjóða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gus Poyet, stjóri Brighton.
Gus Poyet, stjóri Brighton. Nordic Photos / Getty Images
Gus Poyet, knattspyrnustjóri Brighton, hefur komið landa sínum, Luis Suarez, til varnar í kynþáttaníðsdeilunni á milli þess síðarnefnda og Patrice Evra, bakverði Manchester United.

Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að kæra Suarez, leikmann Liverpool, fyrir að nota niðrandi orðalag um litarhaft Evra í síðasta mánuði.

Poyet hefur ekki mikla samúð með Evra og segir hann hafa grenjað eins og smábarn í þessu máli. „Ég trúi Luis Suarez, það er svo einfalt,“ sagði Poyet við enska fjölmiðla. „Ég spilaði knattspyrnu í sjö ár á Spáni og var kallaður öllum mögulegum nöfnum.“

„Ég grét aldrei eins og smábarn, eins og Patrice Evra, og sagði að einhver hefði sagt eitthvað við mig,“ bætti hann við.

„Mér finnst þetta í meira lagi dapurlegt að Suarez hafi verið kærður. Þetta byggir bara á frásögn eins manns. Það er orðið of auðvelt að þvinga fram kæru. Ætlum við virkilega að taka afstöðu í máli þar sem orð standa gegn orði? Það er of áhættusamt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×