Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, virðist vera búinn að finna leið til að koma öllum sókndjöfru heimsklassa leikmönnum sínum fyrir í liði Evrópumeistaranna. Koma Cesc Fabregas í haust skapaði viss vandamál í liðsuppstillingunni sem og uppkoma Thiago á undirbúningstímabilinu en Guardiola fann lausnina með því að breyta um leikkerfi.
Barcelona hefur spilað 3-1-3-3 leikkerfið í undanförnum leikjum þar sem að Guardiola hefur fært einn miðvörðinn sinn upp í stöðu afturliggjandi miðjumanns. Hann er því bara í raun með þriggja manna vörn og einn af þessum þremur varnarmönnum er síðan bakvörðurinn Daniel Alves sem eyðir oft meiri tíma á sóknarvelli en varnarvelli.
Í 5-0 sigrinum á Atlético Madrid um síðustu helgi voru þeir Xavi Hernández, Cesc Fàbregas og Thiago Alcantara á miðjunni með Sergio Busquets fyrir aftan sig. Pedro Rodríguez, Lionel Messi og David Villa voru síðan í fremstu línu.
Gerard Piqué kom inn á sem varamaður fyrir Sergio Busquets og Barcelona datt þá aftur niður í 4-3-3 kerfið þar sem Piqué lék með Javier Mascherano í miðvarðarstöðunni.
Það má ekki búast við því að Barcelona spili 3-1-3-3 (eða 3-4-3) kerfið á móti sterkari andstæðingum í Meistaradeildinni en í þeim leikjum þar sem Guardiola veit að liðið verður 70-80 prósent með boltann þá hikar hann væntanlega ekki við að fækka í vörninni.

