Enski boltinn

Treflarnir mögulega bannaðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samir Nasri og trefillinn umræddi.
Samir Nasri og trefillinn umræddi. Nordic Photos / Getty Images
Til greina kemur hjá FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, að banna leikmönnum að klæðast treflum eins og hefur verið vinsælt hjá nokkrum liðum í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Treflarnir hafa verið sérstaklega áberandi hjá leikmönnum Arsenal en Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur bannað sínum leikmönnum að klæðast þeim í leikjum liðsins.

Talsmaður FIFA segir að sambandið vilji taka til umræðu hvort að treflarnir gætu reynst hættulegir.

„Þetta gæti flokkast sem öryggisatriði," sagði hann. „Sem dæmi má nefna að ef leikmaður væri að hlaupa að marki og að andstæðingur myndi toga í trefilinn hans gæti það skapað hættu á hálsmeiðslum."

Roy Keane, fyrrum leikmaður United, hefur einnig sagt sitt álit á treflunum. „Leikmenn í dag eru orðnir mjúkir. Ég veit ekki hvernig þeim tekst að einbeita sér að leiknum. Þetta er furðulegt. En svona er fótboltinn orðinn í dag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×